Ég er að gefa út vísindabók fyrir krakka og ungmenni (ca. 8-13 ára) fyrir jólin sem kallast Hamfarir. Hún er fjórða bókin í flokki sem heitir Vísindalæsi. Hinar eru Sólkerfið, Umhverfið og Úps: Mistök sem breyttu heiminum.
Bækurnar eru allar myndlýstar af hinum framúrskarandi frábæra Elíasi Rúna, sem reyndar fékk viðurkenningu fyrir myndlýsingu sína á Sólkerfinu.
Hamfarir er fróðleikur um nokkra verstu atburði í sögu Jarðar. Hvernig dóu risaeðlurnar út? Hvernig varð tunglið til? Á Jörðinni hafa ótrúlegar hamfarir dunið yfir, svo sem árekstrar, risaeldgos og ofurísaldir sem breyttu gangi lífsins en leiddu á endanum til okkar. Gætu þeir gerst aftur? Fróðleikur fyrir forvitna krakka... og fullorðna
Mig langar að sjálfsögðu að heimsækja skóla, fyrirtæki, bókasöfn eða hvaðeina til að lesa upp úr bókunum Hamfarir og Úps! Þetta er reyndar öðruvísi upplestur, því heimsóknin er miklu fremur fræðsla með einföldum sýnitilraunum og skemmtun sem er ætlað að kveikja ögn meiri áhuga á vísindum.
Sendu mér endilega
skeyti ef þú vilt fá öðruvísi upplestur eða skemmtimennt.