Sem betur fer eru verkefnin mín æði fjölbreytt. Fékk til að mynda nýverið tækifæri til að vinna með IKEA í kynningu á nýrri línu fyrir börn þar sem þemað er geimurinn. Í því fólst annars vegar að fræða krakka í þrígang í vetrarfríinu um geimvísindi í bland við einfaldar og léttar tilraunir sem auðvelt er að gera heim og hins vegar að halda stutta skemmtimennt fyrir starfsfólk einn morguninn.
Þetta var auðvitað alveg hrikalega skemmtilegt og fékk alveg frábær viðbrögð:
„Við hjá IKEA fengum Sævar Helga til okkar til að fræða bæði starfsfólk og börn sem kíktu til okkar í vetrarfríinu um sólkerfið okkar, stjörnumerkin og fleira skemmtilegt. Eftir fyrirlesturinn frá Sævari vorum við mun fróðari um allt sem snýr að geimnum. Með fróðleiksmolum og skemmtilegum örsögum veitti hann okkur innblástur til að fræðast enn meira og minnti okkur á að horfa reglulega upp til himins í daglegu lífi. Fyrirlesturinn hans Sævars var allt í senn skemmtilegur, fræðandi og hnyttinn. Við þökkum kærlega fyrir okkur!“